BYKO hefur samið við Sensa um sérfræðirekstur og uppsetningu á nýjum netkerfum fyrirtækisins. Markmiðið er að tryggja stöðugleika, öryggi og framþróun þessara kerfa ásamt því að gera rekstrarkostnað fyrirsjáanlegri. Hjá BYKO starfa um 600 manns og fagnaði fyrirtækið 60 ára afmæli í fyrra. Nýjar Breeam vottaðar höfuðstöðvar verða teknar í notkun á Breiddarsvæðinu á komandi mánuðum og einnig mun ný verslun rísa í Reykjanesbæ árið 2025.
Lausnin sem BYKO valdi og var hönnuð í samráði við Sensa fyrir sinn rekstur byggir á samtengingu Fortinet netbúnaðar við öflugar öryggis- og gervigreindarþjónustur Fortinet. Þetta skilar aukinni sjálfvirknivæðingu, eykur öryggi og dregur úr rekstrarkostnaði.
„Áður en við hófum þessa vegferð með Sensa þá hafði BYKO litla sem enga yfirsýn yfir umferð á okkar netkerfum, bilanir voru tíðar og flækjustigið í okkar rekstri var mjög mikið. Eftir ítarlega þarfagreiningu og hönnun með sérfræðingum Sensa ákváðum við vegferð sem byggir á lausnum Fortinet. Við höfum fengið góða yfirsýn yfir netumferð og getum auðveldlega stýrt aðgengi að innviðum BYKO. Kostnaður vegna reksturs okkar kerfa hefur lækkað verulega og er hann orðinn fyrirsjáanlegri. Mikilvægast er að uppi- og svartími okkar kerfa er orðinn eins og best verður á kosið,“ segir Snorri Páll Jónsson, upplýsingatæknistjóri hjá BYKO.
Sensa sérhæfir sig í fjölbreyttum lausnum í upplýsingatækni en þar starfar reynslumikill hópur með hátt þekkingarstig. Sensa leggur mikinn metnað í að bjóða virðisaukandi lausnir sem auka samkeppnishæfni viðskiptavina og árangur í daglegum rekstri. Sensa hefur eitt fyrirtækja á Íslandi Expert Partner samstarfssamning við Fortinet, en nýlega fékk Sensa viðurkenningu sem Partner of the Year.
„Við erum mjög ánægð með það traust sem BYKO hefur sýnt okkur. Sensa hefur áralanga reynslu af rekstri og þjónustu á upplýsingatæknilausnum fyrir fyrirtæki og við trúum því að okkar þekking á þessu sviði muni styrkja BYKO enn frekar, og sjáum fram á blómlegt áframhaldandi samstarf með BYKO og Fortinet“ segir Sigurður M. Jónsson, framkvæmdastjóri sölusviðs Sensa.
„Fortinet hefur í yfir 20 ár sameinað áður aðskilda heima netkerfa og öryggislausna. Með því hefur Fortinet skapað öruggara umhverfi fyrir notendur og fyrirtæki. Fortinet er meðal mest innleiddu netöryggislausna í heiminum, enda fáir framleiðendur sem státa af fleiri einkaleyfum og fleiri vottunum,“ segir Sævar Böðvarsson, framkvæmdastjóri Fortinet á Íslandi.
Myndatexti: Óskar Sæmundsson, sölusérfræðingur hjá Sensa, Hulda Júlíana Jónsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá BYKO, Sævar Böðvarsson, framkvæmdastjóri Fortinet á Íslandi, Snorri Páll Jónsson, upplýsingatæknistjóri hjá BYKO, Sigurður Magnús Jónsson, framkvæmdastjóri sölusviðs Sensa og Pálína Björnsdóttir, viðskiptastjóri hjá Sensa.