Skip to content

Breytingar - Almennir skilmálar

Integrity_Crayon_06

1         GILDI SKILMÁLANNA

1.1       Sensa býður verkkaupum lausnir og þjónustu á sviði samskipta- og upplýsingatækni þar sem haft er að leiðarljósi rekstraröryggi, hagkvæmni, fjölbreytt þjónustuframboð og gæði er varðar þjónustu Sensa.

1.2       Skilmálar þessir gilda um alla þá þjónustu sem Sensa innir af hendi fyrir verkkaupa, nema sérstaklega sé samið um annað.

1.3       Á grundvelli einstaka þjónustusamninga kann Sensa að taka að sér tilgreind verk eða þjónustu fyrir verkkaupa. Lýsing á viðkomandi verki eða þjónustu, afmörkun og umfangi er þá að finna í viðeigandi þjónustusamningi. Í slíkum tilvikum teljast skilmálar þessir hluti af þjónustusamningi/um Sensa og verkkaupa.

1.4       Ef skilmálar þessir rekast á við einstaka þjónustusamninga, sbr. grein 1.3, skulu einstaka þjónustusamningar ganga framar, nema annað sé sérstaklega tekið fram. Rekist einstaka þjónustusamningar á sín á milli skal sá ganga framar sem aðilar hafa skrifað undir síðast.

2       SKILGREININGAR

2.1       „Force Majeure“: Skal eiga við um óviðráðanleg ytri atvik, s.s. náttúruhamfarir, jarðskjálfta, vinnudeilur (þó ekki deilur á vinnustað samningsaðila), ákvarðanir stjórnvalda, uppþot, styrjaldir, eldsvoða, farsóttir, fjarskiptaörðugleika (þ.á.m. sambandsleysis, rofs á fjarskiptum eða annarra truflana) sem rekja má til þriðja aðila eða önnur atvik utan eðlilegs áhrifasviðs samningsaðila.

2.2       Samningurinn: Með samningnum er átt við þá þjónustusamninga sem Sensa og verkkaupi hafa gert sín á milli, ásamt hvers konar viðaukum við þá. Þar sem skilmálar þessir skulu teljast hluti af þjónustusamningum aðila, skal tilvísun í „samninginn“ jafnframt vísa í skilmála þessa, eftir því sem við á.

2.3       Þriðji aðili: Skal eiga við um sérhvern aðila, annan en Sensa og verkkaupa.

3       GREIÐSLUR

3.1       Fyrir umsamda þjónustu Sensa skal verkkaupi greiða Sensa þóknun þá, og eftir atvikum önnur gjöld, sem kveðið er á um í samningi aðila.

3.2     Sensa áskilur sér rétt til að breyta verðskrá sinni og tekur slík breyting gildi 30 dögum eftir að Sensa hefur tilkynnt verkkaupa um breytinguna. Endurseld þjónusta frá þriðja aðila gjaldfærist samkvæmt gildandi verðskrá viðkomandi og viðmiðunargengi hverju sinni.

4       GREIÐSLUSKILMÁLAR

4.1       Sensa gefur út reikning í upphafi hvers mánaðar vegna greiðslu fyrir þjónustu sem innt er af hendi í mánuðinum á undan, nema um annað sé samið í samningi aðila.

4.2       Bæði eðli þjónustu og magntölur geta breyst eftir þörfum verkkaupa og framkvæmir Sensa talningu á auðlindum í notkun og gjaldfærir eftir þeirri talningu. Tímabil talninga er frá og með 21. hvers mánaðar til og með 20. næsta mánaðar.

4.3       Verð og fjárhæðir í samningi aðila eru tilgreindar í íslenskum krónum, án virðisaukaskatts, nema annað sé tekið fram.

4.4       Verkkaupi skal inna greiðslur af hendi inn á bankareikning sem Sensa tiltekur eða með greiðslu greiðsluseðils. Annað greiðsluform telst ekki fullnægjandi.

4.5       Allir reikningar Sensa skulu vera sundurliðaðir og studdir fylgiskjölum svo unnt sé að sannreyna þá. Verði ágreiningur um fjárhæð reiknings getur verkkaupi ekki neitað greiðslu á þeim hluta sem er óumdeildur. Verkkaupa ber að upplýsa Sensa um hvers konar athugasemdir við reikninga þegar í stað og  eða eigi síðar en á eindaga reiknings.

4.6       Reikningstímabil er frá 21. hvers mánaðar til 20. næsta mánaðar. Gjalddagi reikninga er 10. hvers mánaðar. Eindagi reikninga er 20. hvers mánaðar. Sé greitt eftir eindaga eru vanefndarúrræði alltaf miðuð við gjalddaga reiknings.

4.7       Verkkaupi skal greiða sérstaklega fyrir vinnu undirverktaka, skv. verðskrá undirverktaka, sem kynnt skal verkkaupa til samþykkis. Það sama skal eiga við um gjald fyrir leyfi og þá vinnu þriðju aðila sem Sensa hefur milligöngu um að innheimta. Upplýsingar um kostnað á grundvelli þessa liðs skal koma fram í einstaka viðaukum við þjónustusamninga aðila.

4.8       Ef greiðslur eru ekki inntar af hendi á eindaga reiknast á þær hæstu lögleyfðu dráttarvextir á hverjum tíma frá gjalddaga kröfunnar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum.

5       SKYLDUR SENSA OG VERKKAUPA

5.1       Sensa skal tryggja að starfsfólk Sensa og aðrir sem annast þjónustu við verkkaupa á vegum Sensa starfi af heilindum, starfi í anda síðareglna félagsins sem finna má á ytri vef þess og hafi sérþekkingu, menntun og reynslu til þess að geta sinnt verkefnum sem samningur aðila gerir ráð fyrir á fullnægjandi hátt.

5.2      Sensa tryggir að allir starfsmenn, hvort sem um ræðir starfsmenn seljanda, undirverktaka eða starfsmannaleiga, fái laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar og önnur réttindi, í samræmi við samninginn, gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni. Ofangreint skal eiga við óháð lengd starfstíma starfsmanns.

5.3       Bæði Sensa og verkkaupa ber að grípa til viðeigandi ráðstafana með það að markmiði að koma í veg fyrir að starfsmenn þess gerist ekki sekir um spillingu og ber báðum félögum, hvoru fyrir sig, með virkum hætti að vinna gegn hvers kyns spillingu, fjárkúgun og peningaþvætti í starfsemi sinni. Báðir aðilar skulu þannig gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að viðkomandi aðili eða starfsmenn þess bjóði, veiti, biðji um eða taki við mútum í formi fjárhagslegs eða annars konar ávinnings. Verði aðili var við tilvik af framangreindum toga, eða ef grunur vaknar þar um, skal aðili upplýsa gagnaðila um slíkt án tafar. Verði aðili uppvís að broti á reglum um mútur eða spillingu eða broti gegn þessu ákvæði að öðru leyti skal það teljast veruleg vanefnd, í skilningi gr. 12.1. í skilmálum þessum.

5.4       Falli starfsemi verkkaupa undir lög nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, skuldbindur verkkaupi sig til að hlíta skilyrðum þeirra laga. Hvers kyns brot gegn ákvæði þessu telst veruleg vanefnd af hálfu verkkaupa, í skilningi gr. 12.1. í skilmálum þessum.

5.5       Sensa ábyrgist að veita þá þjónustu sem samningur aðila kveður á um í samræmi við skilmála, skilyrði og lýsingu, skilgreindar þarfir verkkaupa, þ.m.t. markmið um uppitíma og áreiðanleika, sem tilgreindar eru í samningnum.

5.6       Sensa skal tilkynna verkkaupa um allar breytingar í rekstri sínum sem geta haft áhrif á getu þess til að sinna verkefnum samkvæmt samningi aðila.

5.7       Sensa áskilur sér allan rétt til þess að neita að framkvæma verk sem stangast á við lög eða geta, að mati Sensa, valdið óásættanlegu tjóni á högum Sensa eða þriðja aðila.

5.8       Verkkaupi skal tryggja að Sensa hafi fullnægjandi aðgang að aðstöðu verkkaupa, og eftir atvikum þriðja aðila, svo Sensa geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samningnum. Þá skal verkkaupi jafnframt veita Sensa nauðsynlegar upplýsingar svo Sensa geti fullnægt skyldum sínum.

6       TAKMÖRKUN ÁBYRGÐAR

6.1       Bótaskylda Sensa takmarkast við beint tjón sem verkkaupi kann að verða fyrir í tengslum við samning aðila. Bótaábyrgð Sensa nær þannig ekki til óbeins eða afleidds tjóns verkkaupa eða þriðja aðila, þ.m.t. rekstrartaps eða gagnamissis.

6.2       Bótaábyrgð Sensa gagnvart verkkaupa takmarkast við þá þjónustu, og eftir atvikum kerfi og hugbúnað, sem Sensa veitir verkkaupa á grundvelli samnings aðila. Sensa skal þó ekki vera bótaskylt vegna tjóns sem er afleiðing rangrar notkunar verkkaupa á kerfum, hugbúnaði eða annarri þjónustu sem Sensa veitir verkkaupa.

6.3       Rifti Sensa samningi þessum vegna verulegra vanefnda verkkaupa, á grundvelli gr. 12.1, skal Sensa ekki vera bótaskylt vegna tjóns er tengist slíkri riftun.

6.4       Skapist bótaskylda á hendur Sensa á grundvelli samningsins, skal bótaábyrgð Sensa fyrir hvert tjónstilvik nema að hámarki þeirri þóknun sem verkkaupi hefur sannanlega greitt til Sensa vegna þeirrar tilteknu þjónustu sem tjónið tengist, á síðustu þremur mánuðum fyrir það atvik sem orsakaði umrætt tjón.

6.5       Að öðru leyti fer um bótaábyrgð skv. almennum reglum skaðabótaréttar.

7       SKAÐLEYSISSKYLDA SENSA

7.1       Sensa mun, í samráði við verkkaupa, (a) halda uppi vörnum fyrir verkkaupa gegn hvers konar málsókn og kröfugerð á hendur verkkaupa þar sem því er haldið fram að þjónusta sú sem Sensa lætur verkkaupa í té brjóti gegn einkaleyfi, höfundarrétti, viðskiptaleynd eða öðrum eignarréttindum þriðju aðila; og (b) greiða kostnað, skaðabætur og málskostnað sem falla kann á verkkaupa vegna slíkrar kröfugerðar þriðja aðila.

7.2       Jafnframt því að halda uppi framangreindum vörnum fyrir verkkaupa, mun Sensa, ef krafa er lögð fram, eða ef Sensa telur líklegt að til þess komi, að eigin frumkvæði og á eigin kostnað (með fyrirvara um samninga þess við söluaðila hugbúnaðar) annað hvort (i) afla verkkaupa réttinda til að halda áfram að nota viðkomandi þjónustu, eða (ii) skipta út þeirri þjónustu sem broti veldur á þann hátt að úr broti sé bætt, að því tilskildu að notagildi hennar skerðist ekki við slík útskipti eða aðlögun.

7.3       Sensa undanskilur sig ábyrgð á kröfum vegna réttindabrota sem rekja má til (i) samblöndunar, þ.e. notkunar á þjónustu, þ.á m. hugbúnaði frá Sensa, með vélbúnaði eða gögnum sem Sensa hefur ekki látið í té, eða notkunar á hugbúnaði eða gögnum sem Sensa hefur ekki látið í té á vélbúnaði frá Sensa; (ii) breytinga á hugbúnaði sem ekki voru gerðar af Sensa, eða (iii) annarra atvika sem rekja má til verkkaupa eða þriðja aðila sem Sensa getur ekki borið ábyrgð á.

Hér er átt við viðvik á vegum verkkaupa eða þriðja aðila sem Sensa hefur enga umsjón með.

8       SKAÐLEYSISSKYLDA VERKKAUPA

8.1       Verkkaupi mun, í samráði við Sensa, (a) halda uppi vörnum fyrir Sensa gegn hvers konar kröfugerð á hendur Sensa af hálfu þriðja aðila sem rekja má til notkunar Sensa á hugbúnaði eða öðru efni sem verkkaupi hefur látið í té og eftir atvikum er hýstur í netkerfi Sensa, og (b) greiða kostnað, skaðabætur og málskostnað sem falla kann á Sensa vegna slíkrar kröfugerðar þriðja aðila.

9       EIGNARÉTTUR OG AFHENDING TIL ÞRIÐJA AÐILA

9.1       Sé ekki kveðið á um annað með skriflegum hætti í samningi aðila skal Sensa halda öllum eignarréttindum yfir hverju því sem Sensa fær verkkaupa í hendur og leggur honum til í tengslum við samninginn.

9.2       Verkkaupi skal halda öllum eignarrétti að því efni sem verkkaupi leggur til á grundvelli samnings aðila, þ.á m. því sem fellt er inn í hugbúnað eða verkefni. Verkkaupi telst eigandi allra gagna sem vistuð eru hjá Sensa.

9.3       Sá eignarréttur sem vísað er til getur verið, en er þó ekki takmarkaður við, eignarrétt yfir hugbúnaði, þar með töldum tölvuforritum, tölvukóða eða öðrum hugverkum sem notið geta verndar hugverkaréttar, svo sem höfundaréttar eða hönnunarverndar, að lögum.

9.4       Sensa kann eftir atvikum að veita verkkaupa leyfi til notkunar á eignarréttindum þriðja aðila með samningi aðila. Slík leyfi eru takmörkuð á grundvelli þeirra skilmála sem fram koma í viðeigandi samningi og skal ekkert í samningi aðila eða skilmálum þessum skoðast sem framsal á slíkum eignaréttindum til verkkaupa.

9.5       Samningsaðilar veita hvor öðrum afnotarétt að eignarréttindum hvors annars, á meðan samningurinn er í gildi, eins og nánar er kveðið á um í einstaka ákvæðum samnings aðila. Óheimilt er með öllu að fá þriðja aðila afurðirnar í hendur, breyta þeim, afrita eða birta án skriflegs leyfis gagnaðila.

10     UPPLÝSINGAÖRYGGI OG PERSÓNUVERND

10.1     Sensa er vottað skv. staðlinum ISO-27001:2013 um stjórnun upplýsingaöryggis.

10.2     Að því marki sem mælt er fyrir um það í samningi aðila skuldbindur Sensa sig jafnframt til að vinna eftir skjalfestum reglum verkkaupa er varða upplýsingaöryggi, séu þær kröfur strangari en staðallinn segir til um sbr. grein 10.1. Það sama skal eiga við um kröfur um upplýsingaöryggi sem lög eða þar til bær stjórnvöld kunna að gera til starfsemi verkkaupa og verktaka á hans vegum.

10.3     Sem veitandi stafrænnar þjónustu skuldbindur Sensa sig til að tryggja að slík þjónusta á sínum vegum uppfylli skilyrði laga nr. 78/2019 um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, sér í lagi skilyrði reglugerðar nr. 1255/2020 um öryggi net- og upplýsingakerfa veitenda stafrænnar þjónustu, um skipulagslegar og tæknilegar öryggisráðstafanir í starfsemi sinni og tilkynningarskyldu alvarlegra atvika til netöryggissveitar (CERT-ÍS).

10.4     Verkkaupi skuldbindur sig til að virða öryggisreglur Sensa, en þær geta m.a. falist í takmörkun Sensa á aðgangi verkkaupa að kerfislýsingu og gögnum úr handbók Sensa um öryggi upplýsinga, undirritun trúnaðaryfirlýsinga, takmörkun á aðgangi að kerfisrými Sensa o.fl. Öll vinna í kerfisrými og við upplýsingakerfi Sensa skal ávallt vera skv. heimild, undir eftirliti og í samræmi við öryggisreglur Sensa.

10.5     Verkkaupi ábyrgist að starfsmenn, umboðsaðilar og verktakar verkkaupa fari ávallt eftir upplýsingaöryggisstefnu  Sensa , sem finna má á heimasíðu Sensa, svo og öðrum verklagsreglum sem Sensa og verkkaupi koma sér saman um, samþykkja formlega og verða hluti samnings aðila. Verkkaupa ber skylda til að halda starfsmönnum, umboðsmönnum og verktökum verkkaupa upplýstum um kröfur þær, sem fylgja þarf vegna öryggisstefnu Sensa. Verkkaupi samþykkir að bæta og tryggja Sensa skaðleysi að því er varðar skemmdir, kostnað eða útgjöld sem Sensa verður fyrir vegna vanefnda á þessu ákvæði nema tjónið megi rekja til athafna eða athafnaleysis starfsmanna Sensa.

10.6     Sensa skal veita verkkaupa rétt til að sannreyna öryggisþætti eins og gagna- og rekstraröryggi með úttektum á aðgengi, hýsingu og meðhöndlun gagna verkkaupa sem Sensa kann að vera falið að sjá um samkvæmt samningi aðila. Ósk um úttekt skal  tilkynna Sensa með hæfilegum fyrirvara. Öll vinna er tengist slíkum úttektum skal greidd af verkkaupa samkvæmt verðskrá Sensa hverju sinni.

10.7     Komi til vinnslu persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 90/2018, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, eða síðar samþykktra laga um vinnslu persónuupplýsinga, við framkvæmd samnings aðila skal verkkaupi teljast ábyrgðaraðili í skilningi laganna og Sensa vinnsluaðili, enda leiði ekki annan skilning af lögunum.

10.8     Í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga, sbr. grein 10.7, skulu samningsaðilar gera með sér sérstakan vinnslusamning og skal slíkur vinnslusamningur vera hluti af samningi aðila.

11     FYRIRTÆKI UNDIR EFTIRLITI FJÁRMÁLAEFTIRLITSINS

11.1     Gagnvart fyrirtækjum sem eru háð eftirliti Fjármálaeftirlitsins þá staðfestir Sensa að félagið hefur kynnt sér leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins nr. 1/2019 vegna áhættu við rekstur upplýsingakerfa eftirlitsskyldra aðila og nr. 6/2014 um útvistun hjá eftirlitsskyldum aðilum og skal tryggja að tilmælum þessum sé fylgt.

11.2     Verkkaupi ber alfarið ábyrgð á öllum fyrirmælum sem hann beinir til Sensa og ber Sensa ekki ábyrgð á atvikum sem fara í bága við tilmæli Fjármálaeftirlitsins, ef þau stafa af fyrirmælum verkkaupa.

11.3     Sensa skal tryggja aðgang starfsmanna verkkaupa, ytri og innri endurskoðanda verkkaupa og Fjármálaeftirlitsins að starfsmönnum, upplýsingum og vinnustöð Sensa í þeim tilgangi að kanna framkvæmd verkefna sem unnin eru fyrir verkkaupa á grundvelli samnings aðila. Slíkt eftirlit eða aðgangur skal að öllu leyti lúta reglum Sensa um upplýsingaöryggi.

11.4     Fyrirkomulag aðgangs skal vera með þeim hætti að það ógni ekki gagnaöryggi annarra viðskiptavina Sensa. Öll vinna er tengist aðgengi Fjármálaeftirlits eða annarra aðila sem verkkaupi óskar að fái aðgang að gögnum sínum skal greidd af verkkaupa samkvæmt verðskrá Sensa hverju sinni.

11.5     Verkkaupa er heimilt að segja samningi aðila upp án fyrirvara ef Fjármálaeftirlitið gerir kröfu um slíkt vegna sérstakra aðstæðna að mati Fjármálaeftirlitsins sem réttlæta slíka uppsögn.

11.6     Sensa er með öllu óheimilt að vista tölvubúnað og gögn hjá þriðja aðila (keðjuútvistun / undirvinnsluaðila) nema með samþykki verkkaupa. Óski Sensa eftir því að keðjuútvista skal verkkaupi meta keðjuútvistunaraðila með sjálfstæðum hætti og skal keðjuútvistun ekki framkvæmd nema verkkaupi hafi veitt sannarlegt samþykki.

11.7     Komi til breytinga á framkvæmd eða tilmælum frá Fjármálaeftirlitinu samþykkja aðilar að semja um breytingar á samningnum í góðri trú þannig að fylgja megi slíkri framkvæmd eða tilmælum.

11.8    Við uppsögn þjónustusamnings sammælast samningsaðilar um útgönguáætlun.

12     RIFTUN

12.1     Báðir samningsaðilar skulu hafa rétt til að rifta samningi aðila þegar í stað með skriflegri tilkynningu til gagnaðilans, með sannanlegum hætti þar sem ástæður riftunar eru tilgreindar, ef gagnaðilinn vanefnir verulega skyldur sínar samkvæmt samningi aðila, þ.m.t. skilmálum þessum. Það er skilyrði riftunar samkvæmt framansögðu að gagnaðili hafi vanrækt að bæta úr slíkum ágöllum innan 14 daga frá því áskorun um slíkar úrbætur kemur fram. Skilyrðið á ekki við ef ljóst þykir að ekki verður bætt úr ágöllum.

12.2     Sensa áskilur sér rétt til að rifta samningum að hluta eða að öllu leyti ef búnaður í eigu/leigu verkkaupa er nýttur langt umfram eðlilega notkun sem skapar verulegt álag umfram það sem eðlilegt getur talist í sameiginlegum innviðum eða veldur auknu álagi við rekstur kerfis. Sensa áskilur sér rétt á að bregðast við slíku umfram álagi án tafar, bregðist verkkaupi ekki við óskum Sensa um að draga úr álagi.

12.3     Samningsaðilar skulu einnig hafa rétt á því að rifta samningi aðila komi til þess að gagnaðili (a) slíti félaginu eða hætti rekstri, (b) sæki um heimild til að leita nauðasamnings eða greiðslustöðvunar eða er tekinn til gjaldþrotaskiptameðferðar skv. íslenskum eða erlendum réttarreglum, (c) eigendaskipti verða að félaginu þannig að meirihluti hluta er í höndum nýrra aðila.

12.4     Riftun eða uppsögn eins samnings skal engin áhrif hafa á gildi annarra samninga aðila eða skilmála þessa að öðru leyti, að því tilskildu að sá samningsaðili sem vanefnt hefur ákvæði viðeigandi samnings uppfylli  skilmála þessa og annarra samninga í gildi. Vanefnd á skilmálum þessum kann þó að réttlæta riftun eða uppsögn á öllum undirliggjandi þjónustusamningum.

13     AFLEIÐINGAR SAMNINGSLOKA

13.1     Öll réttindi sem samningsaðilum hafa verið veitt skulu, við samningslok, þegar falla niður og allar ógreiddar kröfur sem stofnast hafa skv. samningi aðila skulu þegar gjaldfalla. Í þessu felst m.a. að við samningslok skal Sensa heimilt að loka á allar þjónustur er tengjast hinum ógreiddu kröfum.

13.2     Við samningslok af hvaða ástæðu sem er skulu samningsaðilar skila gagnaðila innan þrjátíu (30) daga hvers konar eignum, efni, gögnum, trúnaðarupplýsingum og öðrum hlutrænum þáttum tengdum samningnum, þar með talið hvers konar vél-, net- og hugbúnaði, sem látinn hefur verið í té og sannanlega er í eigu gagnaðila eða hann hefur umráð yfir, nema annað leiði af samkomulagi samningsaðila um uppgjör vegna samningsloka eða öðru samkomulagi samningsaðila.

13.3    Hafi verkkaupi ekki óskað eftir, eða gert samkomulag um, afhendingu á gögnum og upplýsingum innan þrjátíu (30) daga frá samningslokum, sbr. grein 13.2, skal Sensa heimilt að eyða slíkum gögnum og upplýsingum. Sensa skal enga ábyrgð bera á tjóni sem verkkaupi kann að verða fyrir í tengslum við slíka eyðingu.

13.4     Þegar um er að ræða vanefnd af hálfu verkkaupa sem leiðir til þess að Sensa bindur endi á þjónustu, skulu samningsaðilar semja um greiðslu fyrir endurtengingarkostnað, hækkun þjónustutaxta og/eða tryggingu vegna þess áður en þjónusta er veitt að nýju.

13.5     Við samningslok vegna uppsagnar, riftunar eða þess að gildistími samningsins rennur út, samþykkir verkkaupi að fjarlægja eigin búnað og eignir sem staðsettar eru í húsakynnum Sensa eins og við á. Hafi slíkur búnaður eða eignir ekki verið fjarlægðar innan þrjátíu (30) daga frá samningslokum, á Sensa rétt á því að láta fjarlægja, flytja á annan stað eða geyma á annan hátt slíkan búnað eða eignir á kostnað verkkaupa.

14     TRÚNAÐARSKYLDA SAMNINGSAÐILA

14.1     Samningsaðilar skulu halda fullum trúnaði um málefni sem þeir fá upplýsingar um frá gagnaðila og ætla má vegna eðlis og/eða aðstæðna, að fara skuli með sem trúnaðarmál, og skal sá samningsaðili á engan hátt færa sér slíkar upplýsingar í nyt nema í samræmi við ákvæði samnings aðila á gildistíma hans, sbr. t.a.m. ákvæði laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, með áorðnum breytingum. Trúnaðarskylda starfsmanna samningsaðila og verktaka skal haldast ótímabundið eftir að þeir hafa lokið störfum í þágu samningsaðila og eftir uppsögn eða riftun samnings aðila.

15     FRAMSAL

15.1     Hvorugur samningsaðila má selja, framselja eða yfirfæra á annan hátt samning aðila eða einhver réttindi eða skyldur á grundvelli hans, í heild eða að hluta til, og sérhver tilraun til slíks framsals skal teljast ógild og marklaus nema fyrir liggi skriflegt samþykki gagnaðila. Þrátt fyrir framangreindar takmarkanir á framsali þessa samnings, telst beint eða óbeint framsal innan fyrirtækjasamstæðu þeirrar er Sensa tilheyrir ekki fela í sér framsal á samningnum, enda beri Sensa áfram ábyrgð á því gagnvart verkkaupa, að verk séu unnin í samræmi við samning aðila.

15.2     Sensa skal heimilt að ráða undirverktaka í þeim tilgangi að framkvæma ákveðna verkþætti sem sérstaklega eru tilgreindir eru samningi aðila. Sensa skal ávallt leita fyrirfram samþykkis verkkaupa á vali undirverktaka. Sensa skal þó ávallt heimilt að framselja skyldur sínar samkvæmt samningi aðila, án samþykkis verkkaupa, ef slíkt er að mati Sensa nauðsynlegt til þess að bregðast við og/eða vinna í bilun eða öðru sem nauðsynlegt er að bregðast við án tafar, en þó einungis í þeim tilvikum er undirverktaki fær engan aðgang að persónugreinanlegum upplýsingum verkkaupa. Ef Sensa felur undirverktaka að vinna einstaka hluta verks breytir það engu um samningsskyldur Sensa gagnvart verkkaupa.

16     AFSAL

16.1     Sé réttindum afsalað að því er varðar tiltekna vanefnd á skilmálum eða ákvæðum samnings aðila gildir slíkt ekki sem afsal réttinda að því er varðar aðra vanefnd á sömu eða öðrum ákvæðum samningsins. Vanræki samningsaðili að krefjast þess af gagnaðila að hann uppfylli einhverja skuldbindingu skv. samningi aðila eða skilmálum þessum, telst hann ekki hafa fallið frá því að viðkomandi skuldbinding verði uppfyllt, nema slíkt sé staðfest skriflega.

17     AÐLÖGUN

17.1     Ef einhver ákvæði skilmála þessara eða samnings aðila eru í andstöðu við ófrávíkjanleg lög og reglur sem um þá gilda eða ef slík ákvæði eru dæmd ógild af dómstóli sem hefur lögsögu yfir samningsaðilum, skulu slík samningsákvæði umorðuð á þann veg að sem minnst röskun verði á upphaflegum tilgangi samningsaðilanna innan ramma viðkomandi laga og dómsúrlausna, og skulu ákvæði skilmálanna og/eða samnings aðila að öðru leyti halda fullu gildi.

18     ÓVIÐRÁÐANLEG ATVIK

18.1     Samningsaðilar verða ekki krafðir bóta vegna tafa eða rofs á þjónustu eða framkvæmdum sem rekja má til óviðráðanlegra ytri atvika s.s. “Force Majeure”, bilanir hjá þriðja aðila eða tilfelli sem orsakast af aðgerðum annarra aðila en Sensa og samþykktra undirverktaka.

18.2     Komi til þess að framkvæmd eða undirbúningur á þjónustu Sensa fellur niður eða frestast vegna óviðráðanlegra ytri atvika, skal Sensa tilkynna verkkaupa um það án tafar og þegar hefjast handa við lausn þeirra vandamála og eftir atvikum staðgöngu annarra þjónustuaðila.

18.3     Standi óviðráðanleg hindrun lengur yfir en í 14 daga getur gagnaðili  sagt upp samningi aðila fyrirvaralaust. Hvorugur samningsaðila á þá kröfu á hendur hinum að öðru leyti en hvað varðar kröfur sem stofnast hafa áður en til hindrunar kom.

19     RÁÐNINGAR

19.1     Samningsaðilar skulu almennt ekki ráða til starfa starfsmenn gagnaðila á meðan samningur aðila er í gildi.

20     TENGILIÐIR OG SAMSKIPTI

20.1     Sensa og verkkaupi skulu tilgreina tengiliði í samningi sínum, eftir því sem við á. Samningsaðilar skulu ávallt tryggja að skilgreindir tengiliðir samningsins séu bæði hæfir og bærir til að fjalla um viðkomandi þjónustu og taka ákvarðanir með skilvirkum hætti. Báðum samningsaðilum ber skylda til þess að tilkynna gagnaðila eins fljótt og auðið er ef skipaður er nýr tengiliður.

20.2     Formlegar tilkynningar og samskipti milli samningsaðila skulu eiga sér stað skriflega og skulu berast á tengiliði samningsaðila.

20.3     Samningsaðilar munu leggja sig fram við að haga samskiptum sín á milli á faglegum og á jákvæðum nótum. Gagnkvæm háttvísi og virðing skal höfð að leiðarljósi.

21     BREYTINGAR Á SKILMÁLUM

21.1     Sensa áskilur sér rétt til að breyta skilmálum þessum. Verði efnislegar breytingar á skilmálunum skal Sensa tilkynna þær breytingar til verkkaupa með að lágmarki 30 daga fyrirvara.

22     LAGAVAL OG VARNARÞING

22.1     Um skilmála þessa og samning aðila skulu gilda íslensk lög og réttarreglur Rísi ágreiningur milli aðila skulu þeir leitast við að leysa hann sín á milli en að öðrum kosti vísa honum til Héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar, nema samningsaðilar semji um annað.

Reykjavík, 28. febrúar 2022. 

Eldri útgáfur af skilmálum má finna hér.

Viltu ráðgjöf?

Hikaðu ekki við að senda okkur línu eða taka upp símann, s. 425 1500

Sensa hafðu samband og fáðu ráðgjöf

Sensa ehf. notar vefkökur (e.cookies) m.a. til að bæta vefinn og aðlaga betur að þörfum notenda. Nánari upplýsingar hérna.