Sensa leggur stöðugt áherslu á að auka öryggi og áreiðanleika þjónustu sinnar. Hluti af þeirri viðleitni er flutningur afritunarþjónustu úr höfuðborgarsvæðinu í nýtt og fullkomið gagnaver atNorth á Akureyri.
Raunkerfi viðskiptavina verða áfram rekin í gagnaveri Verne á Reykjanesi, en afritunargögn sem áður voru vistuð í Síðumúla í Reykjavík hafa nú verið flutt til Akureyrar. Með þessari breytingu eru gögn viðskiptavina varðveitt í tveimur óháðum gagnaverum, rekin af mismunandi aðilum, sem eykur bæði viðnámsþrótt og öryggi þjónustunnar.
„Markmið okkar með þessari tilfærslu er að tryggja sem besta vernd fyrir gögn viðskiptavina“ segir Steingrímur Óskarsson, öryggisstjóri Sensa. „Með því að nýta tvö óháð gagnaver á jarðfræðilega aðskildum stöðum tryggjum við bæði rekstraröryggi og viðnámsþrótt kerfa, og þar sem við höfum tengt þau saman með háhraða tengingum sem liggja aðskildar í jörðu hefur þetta ekki áhrif á endurheimtatíma afrita, áræðanleiki og þjónustugæði eru þau sömu.“
Breytingin tryggir aukið gagnaöryggi þar sem gögnin eru vistuð á jarðfræðilega aðskildu svæði með aðra innviði fyrir raforku og í meiri fjarlægð frá náttúruvá. Til að hámarka rekstraröryggi eru gagnaverin tengd saman með tveimur sjálfstæðum háhraða ljósleiðurum sem liggja aðskildir í jörðu. Breytingin hefur því engin áhrif á RTO (Recovery Time Objective) – endurheimt gagna verður áfram jafn hröð og örugg og áður.